Saga tónleikanna

Saga sumartónleikanna, upphafsmenn og samstarfsaðilar.

Allar hugmyndir byrja sem fræ, sem síðan er sett í mold og ef það fær góða umönnun, góða næringu, hlýju og mikinn áhuga er næsta víst að úr verði góð jurt sem með tímanum dafnar og blómstrar.
Árið 1987 var þannig fræi plantað í áður fjölbreytta tónlistarflóru Norðurlands. Það voru þau Margrét Bóasdóttir söngkona sem um þær mundir bjó að Grenjaðarstað í Aðaldal og Björn Steinar Sólbergsson organisti við Akureyrarkirkju sem hvort um sig var nýkomið úr löngu tónlistarnámi á erlendri grundu og þau vildu búa til farveg fyrir tónleikahald að sumri.  Margrét og Björn sáu svo um tónleikana ásamt mökum sínum Kristjáni Val Ingólfssyni og Hrefnu Harðardóttur í 5 ár.  Árið 1992 var ákveðið að búa til stöðu framkvæmdastjóra sem sæi um undirbúning og umsjón tónleikanna, sinnti Hrefna Harðardóttir því starfi til ársins 2008 en þá tók Sigrún Magna Þórsteinsdóttir við.
Tónleikaröðin gekk í tólf farsæl ár, undir nafninu Sumartónleikar á Norðurlandi en frá og með árinu 1999 eru tónleikar aðeins haldnir í Akureyrarkirkju og heitir nú SUMARTÓNLEIKAR Í AKUREYRARKIRKJU.

Skálholtskirkja reið á vaðið í sumartónleikahaldi árið 1974 og hafa margar kirkjur, í einhverri mynd fylgt í kjölfarið.  Má þar nefna Hallgrímskirkju í Reykjavík, Grindarvíkurkirkju, Selfosskirkju, Blönduóskirkju, Stykkishólmskirkju og Seyðisfjarðarkirkju.

Tilgangur.
Grundvallarhugmyndin að baki tónleikahaldinu var að skapa skilyrði til þess að heimamenn og ferðamenn mættu hlýða á vandaða tónlist og njóta um leið kyrrðar og íhugunar í guðshúsi. Það er nokkuð almenn skoðun Íslendinga að kirkjur eru ekki bara fagur staður ástundunar messugjörða og guðsorðs, heldur líka samkomuhús menningar og lista þar sem mætist hið mannlega og andlega.

Samstarfsaðilar.
Í upphafi hófst samstarf með þremur kirkjum: á Húsavík, Reykjahlíð við Mývatn og á Akureyri. Fyrsta árið voru haldnir 6 tónleikar í hverri kirkju og aðsóknin lofaði góðu. Árin liðu og tónleikahaldið breytti lítillega um svip þar til fundin var góð formúla sem virkaði vel. Skilningur á gildi sumartónleika jókst, og þá höfðu fleiri kirkjur áhuga á samstarfi og umfangið jókst að sama skapi. Alls tóku 11 kirkjur þátt í Skagafjarðar, Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslum.

Orgelið í Akureyrarkirkju var endurbyggt 1995 og þykir vera eitt af bestu konsertorgelum landsins. Samstarf átti sér fljótt stað við Hallgrímskirkju í Reykjavík þar sem tónlistarmenn sem leika í tónleikaröðinni "Alþjóðlegt orgelsumar" leika einnig í Akureyrarkirkju.  Þessi tvö orgel hafa mikið aðdráttarafl fyrir erlenda orgelleikara og er mikil ásókn í að halda orgeltónleika á Íslandi.

Sumartónleikar á Norðurlandi áttu í nokkur ár fulltrúa í níu manna fulltrúaráði Tónlistarráðs Íslands, en það eru samtök rúmlega 50 aðildarfélaga sem tengjast tónlist og tónlistariðkun og hafa að markmiði að efla tónlist á Íslandi. Samstarf við Listasumar á Akureyri hefur verið frá 1993.  Kristni í þúsund ár á Íslandi var þema tónleikanna árin 1999 og 2000.

Núverandi umsjónarmenn Sumartónleika í Akureyrarkirkju eru organistar kirkjunnar, þau Eyþór Ingi Jónsson og
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir.

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju
Pósthólf 442 602 Akureyri Ísland
Sími: 462-7700 fax: 461-2472
tölvupóstur: sigrun@akirkja.is