05.05.2006
Sem kunnugt er þá eru páskarnir, upprisuhátíð frelsarans, stærst allra hátíða hinna kristnu. Páskatíminn nær allt til hvítasunnu og dagarnir fjörtíu frá páskum til uppstigningardags kölluðust til forna gleðidagar. Litur páskanna er hvítur sem jafnframt er litur gleðinnar. Vorið og sumarkoman taka undir boðskapinn, upprisuna og gleðina. Í bæn sem ættuð er úr grísku kirkjunni er talað inn í þessar aðstæður: ,,Ó, skapari alls sem er, þú sem ummyndar allt, vér lofum þig. Svífandi ský, syngjandi fuglar, blómið sem springur út, allt lofar þig."