Nokkur ungmenni í Æskulýðsfélagi Akureyrarkirkju héldu bingó nú fyrir jólin og rennur allur ágóði
óskiptur til Mæðrastyrksnefndar.
Á mánudagskvöldið söfnuðu þau rúmlega 100.000 krónum og fara þeir fjármunir beint í brýnt og gott
málefni.
„Við heyrðum af því að Mæðrastyrksnefnd hefði átt í basli með úthlutunina í fyrra og ákváðum
því að gera það sem í okkar valdi stóð,“ segir Ingi Þór, einn þeirra sem stóð að bingóinu en ungmennin
eru 16 og 17 ára nemendur við VMA, Verkmenntaskólann á Akureyri. Þessi ungmenni stóðu einnig fyrir bingói í fyrra og ekki var annað
á þeim að heyra en þau hygðust gera slíkt hið sama á næsta ári.
Andi jólanna, kærleikur og gjafmildi
„Við gengum í ýmis fyrirtæki hér í bænum og söfnuðum vinningum. Viðtökurnar voru frábærar og
náðum við að safna vinningum frá um 40 fyrirtækjum hér á Akureyri, “ segir Ingi Þór.Þrátt fyrir að
fyrirtækin myndu ekki alla jafna gefa vinninga í bingó þá var það nú svo að málefnið er það gott að fyrirtækin
vildu endilega vera með. Andi jólanna svífur yfir Akureyri þessa dagana og að sjálfsögðu eiga allir að geta glaðst um jólin, sama hver
fjárhagsstaða fólks er.