Næstkomandi sunnudag, þann 13. júlí kl. 17:00,
verða haldnir aðrir tónleikar í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju og mun orgelleikarinn Bine Katrine Bryndorf leika á tónleikunum.
Á efnisskránni er Toccata
í F-dúr eftir Johann Sebastian Bach, tveir kaflar úr L’Ascension eftir Olivier Messiaen og Commotio eftir Carl Nielsen.
Bine Bryndorf,
sem er einn af virtustu orgelleikurum Dana, byrjaði mjög ung að læra á orgel og
stundaði m.a. nám hjá Michael Radulescu við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Einnig hjá William Porter i Boston og Daniel Roth í
París.
Eftir
lokapróf í kirkjutónlist, orgelleik og semballeik var Bine aðstoðarkennari Michael Radulescus í Vín. Árið 1994 varð hún dósent
við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn og í janúar 2001 varð hún prófessor við sama skóla, þá
aðeins þrjátíu og tveggja ára gömul. Síðan 1996 hefur hún einnig verið organisti við Vartov kirkju í miðborg
Kaupmannahafnar.
Bine
Bryndorf hefur unnið til verðlauna í orgelkeppnum í Innsbruck, Brugge og í Óðinsvéum auk verðlauna í kammertónlistarkeppnum
í Melk og í Kaupmannahöfn í keppni á vegum Danska útvarpsins. Hún hlaut Gade-verðlaunin 1987 og veturinn 1999-2000 var hún útnefnd
tónlistarmaður ársins af Rás 2 Danska útvarpsins.
Bine Bryndorf er mjög virk sem einleikari og með kammertónlistarhópum auk þess sem hún hefur kennt á meistarakúrsum víða um Evrópu
og í Bandaríkjunum. Þá er hún einnig eftirsótt sem dómari í orgelkeppnum.
Bine
Bryndorf hefur hljóðritað fyrir Hänssler, Dacapo og Classico. Í fyrra hlaut hún dönsku tónlistarverðlaunin fyrir besta klassísku
geislaplötuna fyrir hljóðritun sína á verkum Dietrichs Buxtehude.
Tónleikarnir standa í klukkustund án hlés
og er aðgangur ókeypis.