Föstudaginn 21. september hefst að nýja tónlistarnámskeið í Akureyrarkirkju sem ber heitið Krílasálmar. Þetta er
í fimmta sinn sem slíkt námskeið er haldið í kirkjunni en námskeiðið er ætlað foreldrum 3-12 mánaða ungbarna og
markmiðið er að kenna foreldrum hvernig nota má tónlist til aukinna tengsla og örvunar við börnin þeirra. Kennd eru ýmis lög og leikir og
lögð áhersla á tengsl snertingar, söngs og hreyfingar. Raddir foreldranna eru þær fyrstu sem ungbörn læra að þekkja og það
veitir þeim öryggi og ánægju að heyra þær. Sönghæfileikar skipta því engu máli í þessu samhengi en málið
snýst fyrst og fremst um að rækta tengsl foreldris og barns! Einkum er notast við tónlist kirkjunnar, þekkt barnalög, leiki og þulur en einnig kynnt
tónlist til hlustunar og leikið með hljóðfæri.
Námskeiðið er tvisvar í viku, 45 mínútur í senn, á þriðjudögum og á föstudögum kl. 10:30 og er
þátttökugjald kr. 3000 fyrir sex skipti. Skráning og nánari upplýsingar veitir Sigrún Magna í síma 820-7447, einnig má senda
tölvupóst á netfangið sigrun@akirkja.is