Opið bréf til safnaðar Akureyrarkirkju og vina á Íslandi.
Fréttir af vaxandi neyð hjá ykkur valda okkur miklum áhyggjum. Margar spurningar kvikna og okkur er brugðið. Það blómlega Ísland sem við
þekkjum og urðum ástfangin af gæti sogast niður í hringiðu hálf löglegra og hálf glæpsamlegra fjármálagjörninga
fárra manna sem störfuðu bæði innanlands og erlendis.
Annars vegar verður að leita orsaka, stunda sjálfsgagnrýni og finna þá sem ábyrgð bera. Það verður erfitt verk því þeir
sérfæðingar sem að því vinna koma úr sömu hópum og hefðu fyrir löngu getað komið í veg fyrir þessar hörmungar.
Hins vegar þarf að móta framtíðina og við viljum halda áfram að gera það með ykkur.
Að okkar mati eigið þið ekki heima á einhverjum hryðjuverkalista eins og ríkisstjórn Bretlands telur sig geta sett ykkur á. Þið teljist til
þess fólks sem við erum bundin vinaböndum. Þið eruð okkur alltaf kær.
Ykkar þjáningar eru okkar þjáningar og ykkar gleði okkar. Síðasta áratuginn hafa ótalmargir unglingar og fullorðnir fengið að reyna
það.
Við höfum alltaf dáðst að snerpu ykkar, sköpunargleði og þolgæði, skopskyni og stóru hjarta. Við biðjum Guð að gefa að
þessir eiginleikar ykkar glatist ekki. Eldgos, jarðskjálftar, jökulhlaup og langar vetrarnætur hafa ekki svipt ykkur þeim. Látið ekki hið vitskerta
heimshagkerfi gera það.
Við munum halda áfram að hugsa til ykkar. Næsta sunnudag, þann þriðja í aðventu, biðjum við fyrir ykkur og landinu ykkar.
Megi þessi vers úr spádómsbók Jesaja færa ykkur blessun á aðventunni:
Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér. Myrkur grúfir yfir jörðinni
og sorti yfir þjóðunum en Drottinn er runninn upp yfir þér og dýrð hans birtist yfir þér.
(Jesaja 60, 1 - 2)
Vinir ykkar í Bochum í Þýskalandi.