Það verður líf og fjör í Akureyrarkirkju sunnudaginn 21. apríl þegar viðburðurinn Orgelkrakka-ævintýri í Akureyrarkirkju fer fram. Hópur barna spilar á orgelið ásamt organistunum Guðnýju Einarsdóttur og Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur. Á tónleikunum verður flutt ævintýrið um konunginn í Haribo landi og ýmsa skemmtilega karaktera. Inn í söguna fléttast þekkt orgelverk í bland við kvikmynda- og dægurlagatónlist. Búast má við skemmtilegum uppákomum og óvæntum gestum. Guðmundur Einar Jónsson og Hákon Geir Snorrason eru kynnar og sjá um að halda uppi góðri stemningu. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis og ævintýrið er styrkt af Menningarsjóði Akureyrarbæjar og er hluti af Barnamenningarhátíð.