Schola Cantorum á Sumartónleikum um helgina

Færðu músina yfir myndina!Þriðju tónleikarnir í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju verða haldnir sunnudaginn 16. júlí kl. 17.
Að þessi sinni verða flytjendur Kammerkórinn Schola Cantorum og stjórnandi hans Hörður Áskelsson, Inga Rós Ingólfsdóttir leikur á selló. Á efniskrá tónleikanna verða verk eftir Heinrich Schütz og Þorkel Sigurbjörnsson.
Tónleikarnir standa í klukkustund án hlés og er aðgangur ókeypis.
Sjá nánar á heimasíðu :
http://www.akureyrarkirkja.is/sumartonleikar


Kammerkórinn Schola Cantorum var stofnaður upp úr síðustu áramótum á grunni Schola Cantorum, kammerkórs Hallgrímskirkju. Kórinn hafði þá starfað við góðan orðstír í níu ár, undir stjórn Harðar Áskelssonar og haldið fjölmarga tónleika þar sem einkum var flutt tónlist frá endurreisnar- og barokktíma. Einnig var samtímatónlist áberandi í verkefnaskrá kórsins og frumflutti kórinn mörg verk eftir íslensk tónskáld.
Í kjölfar endurnýjunar kórsins voru fyrstu tónleikar hópsins haldnir í mars sl. í Hallgrímskirkju þar sem eingöngu voru flutt verk eftir Heinrich Schütz. Þann 1. júní sl. tók svo kórinn þátt í frumflutningi á Sinfóníu nr. 2 eftir Atla Heimi Sveinsson ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Næst mun kórinn mæta til leiks á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju 16. júlí nk. Í haust mun svo Schola cantorum taka þátt í frumflutningi óratóríunnar Eddu 1 með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við það tilefni verður kórinn stækkaður umtalsvert. Í nóvember flytur Schola cantorum Sálumessu eftir franska barokktónskáldið André Campra ásamt barokksveit.
Schola cantorum nýtur þess heiðurs að vera annar af tveimur tónlistarhópum Reykjavíkur árið 2006.