Sigrúnu Mögnu úthlutað listamannalaunum


Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, annar af tveimur organistum Akureyrarkirkju, fékk í vikunni úthlutað listamannalaunum til 6 mánaða. Starfslaunum er ætlað það hlutverk að skapa listamönnum möguleika á að helga sig listsköpun sinni. 

Sigrún Magna fyrirhugar að æfa upp tvær tónleikaefnisskrár fyrir orgel og flytja á tónleikum á Íslandi og í Danmörku. Fyrri efnisskráin samanstendur eingöngu af orgelverkum eftir konur, bæði íslenskar og erlendar, og fylgir því töluverð rannsóknarvinna að sögn Sigrúnar Mögnu,  en sú síðari er tileinkuð Páli Halldórssyni, fyrsta organista Hallgrímskirkju í Reykjavík.

Sigrún Magna stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri bæði barnakóra og blandaðra kóra í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún hóf störf við Akureyrarkirkju árið 2007.

Akureyrarkirkja óskar Sigrúnu Mögnu til hamingju með þessa úthlutun og óskar henni allra heilla við verkefni sín á nýja árinu.