Sunnudaginn 18. september kl. 14 var vígsluathöfn í Hóladómkirkju. Þá vígði Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur guðfræðing
til prestsþjónustu við Akureyrarkirkju.
Sr. Svavar A. Jónsson lýsti vígslu. Vígsluvottar voru sr. Gunnar Jóhannesson, sr. Hannes Örn Blandon prófastur, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir og Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni. Kór Akureyrarkirkju söng, organisti var Björn Steinar Sólbergsson og meðhjálpari Sigríður Gunnarsdóttir.
Sólveig Halla er frá Lönguhlíð í Hörgárdal, fædd árið 1977. Hún lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands í febrúar 2004. Sólveig Halla hefur starfað síðastliðin misseri sem æskulýðsfulltrúi við Akureyrarkirkju, en þetta nýja embætti var auglýst með sérstaka áherslu á barna- og unglingastarf.
Síðast var prestsvígsla að Hólum fyrir fimm árum.