Nánari upplýsingar um starf æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju og Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastdæmis má finna hér.
Starfslýsing:
Starfið skiptist þannig að gert er ráð fyrir að 70% af tíma starfsmanns falli í þágu safnaðarstarfs Akureyrarkirkju og 30% verði unnin í þágu Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastdæmis með það að markmiði að efla æskulýðsstarf á starfssvæðinu og auka samskipti og samgang milli æskulýðsfélaga.
Æskulýðsstarfið skal rúmast innan fjárhagramma sem sóknarnefnd Akureyrarkirkju ákveður á ársgrundvelli að höfðu samráði við prófastdæmið.
Starfið er 100% starf. Starfsmaður skal ekki sinna öðrum launuðum störfum nema að fengnu samþykki næsta yfirmanns. Næsti yfirmaður er sóknarprestur Akureyrarsóknar. Sóknarprestur og prófastur marka stefnu um skiptingu verkefna á grundvelli skiptingu milli Akureyrarsóknar og prófastdæmisins.
Vegna eðlis kirkjulegs starfs, er ekki gert ráð fyrir að greidd sé yfirvinna, heldur gert ráð fyrir að æskulýðsfulltrúi skipuleggi safnaðarstarf á sínum vettvangi þannig að verkefni hans falli innan 100% starfshlutfalls. Þannig má gera ráð fyrir að mæta þurfi kvöld og helgarvinnu, sem og vinnu á stórhátíðum með frítökurétti.
Allt efni, hugverk, handrit og annað sem fulltrúinn vinnur í starfi sínu er eign vinnuveitanda.
Helstu verkefni:
Safnaðarstarf Akureyrarkirkju
Sunnudagaskóli
Umsjón og skipulagning sunnudagaskólans í samstarfi við presta Akureyrarkirkju. Ábyrgð á efnistökum trúarlegs boðskaps er í höndum presta. Sunnudagaskólinn er almennt í Safnaðarheimilinu, en fjölskyldumessur eru að jafnaði einu sinni í mánuði í kirkjunni. Stefnt skal að því að fjölskyldumessur tengi saman starf sunnudagaskólans og hefðbundinnar messur á forsendum beggja.
Starfið krefst undirbúnings og frágangs.
Foreldramorgnar
Umsjón með foreldramorgnum á miðvikudögum í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju kl. 10-12. Kallar ekki á mikinn undirbúning eða dagskrá.
Kirkjukrakkar (Miðvikudagar)
Samvera krakka úr 1.-4. bekk. Umsjón og skipulagning starfsins, hefur með sér 1-2 til aðstoðar, krakkar á framhaldsskólaaldri. (nú kl. 15.00-16.00 á miðvikudögum). Krefst undirbúnings og frágangs.
TTT (Miðvikudagar)
Samvera krakka 10 til 12 ára (TTT). Umsjón og skipulagning starfsins, hefur með sér 1-2 til aðstoðar, krakkar á framhaldsskólaaldri. (1 klst á miðvikudögum). Krefst undirbúnings og frágangs.
Æskulýðsstarf, eldri krakkar (Miðvikudagskvöld)
Felst í að skipuleggja starf og tómstundir fyrir elstu krakkana. Ungt fólk á aldrinum ca 18-25 ára hefur haft umsjón með þessu starfi, séð um að taka á móti krökkum, hafa viðveru og ganga frá. Æskulýðsfulltrúi myndi skipuleggja vetrarstarfið, áherslur og markmið í samstarfi við aðstoðarfólkið. Hluti þess er að skapa stemningu og grundvöll undir þátttöku í æskulýðsstarfi og æskulýðsmótum á héraðs- og landsvísu. Hér innan fellur einnig vinna sem unnin er í þágu prófastdæmis í sama skyni.
Einnig þátttaka með prestum við fermingarfræðslu í Akureyrarkirkju.
Æskulýðsstarf í Naustahverfi (--- dagar)
Naustahverfi er nokkurn spöl frá Akureyrarkirkju. Stefnt er að því að reisa þar æskulýðsstarf, enda fáist til þess aðstaða í Naustaskóla. Starfið yrði með sama sniði og annað æskulýðsstarf í kirkjunni. Eftir atvikum er hægt að kanna möguleika á að nýta frístundastrætó sem ekur frá skólum að íþróttamannvirkjum, ef í boði verður.
Æskulýðsmót og alþjóðasamstarf
Æskulýðsfulltrúi hefur veg og vanda að þátttöku í skipulagningu fjórðungsmóts, en annað hvert ár að jafnaði, er umsjón þess í höndum Akureyrarsóknar. Eins skal æskulýðsfulltrúi skipuleggja og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Kalli starfið á ferðalög æskulýðsfulltrúa til útlanda, skal sérstaklega samið um fyrirkomulag launa og/eða frítökuréttar á móti.
Stuðningur við barnakórastarf (Fimmtudagar)
Æskulýðsfulltrúi hafi það verkefni að vera kórstjóra til aðstoðar á kóræfingum. Annað starf tengt sérstökum viðburðum, t.d. um stórhátíðir. Hér er átt við þátttöku og/eða skipulagningu á aðventuuppákomum, uppsetningu helgileiks á jólum, skipulaging jólaballs í Safnaðarheimili, æskulýðsdagur og fleira í þeim dúr.
Umsjón með samfélagsmiðlum, vefsíðu og foreldrasamskiptum
Hér er átt við að tryggja það að á hverjum tíma séu réttar upplýsingar á samfélagsmiðlum um dagskrá, stjórna póstgrúppum eða facebook hópum. Fá foreldra að starfinu með börnum sínum, sérstaklega við sérstök tilefni eins og ferðir og æskulýðsmót, með sama hætti og þekkist í íþróttastarfi (þar sem foreldrar taka að sér liðsstjórn). Akureyrarkirkja leggur starfsmanni til síma eða spjaldtölvu, sem nýtist við uppfærslu samfélagsmiðla, heimasíðu og annarra verkefna sem sinna þarf gegnum síma/tölvu jöfnum höndum.
Önnur verkefni tilfallandi eða sem eðlilegt er að takast á við
Hér er til að mynda átt við að útbúa námsefni, undirbúa fræðslu. Dæmi um verkefni væri að móta í samstarfi við aðra kristnifræði sem valfag fyrir elstu bekki grunnskóla, sem myndi verða framhald af fermingarfræðslu.
Þá er gert ráð fyrir að æskulýðsfulltrúinn verði ritara til aðstoðar og eftir atvikum afleysingar að hluta við símsvörun, móttöku og önnur tilfallandi verkefni.
Á héraðsvísu
Akureyrarkirkja sér æskulýðsfulltrúa fyrir starfsaðstöðu og nauðsynlegum búnaði til starfsins. Æskulýðsfulltrúinn nýtir eftir því sem hægt er ávinning og afrakstur í starfi fyrir Æskulýðsfélag Akureyrarkirkju í þágu starfsins á héraðsvísu.
Helstu verkefni eru þessi:
Héraðsnefnd ákveður þau verkefni sem fulltrúinn vinnur að fyrir prófastdæmi.
Dæmi um verkefni gætu verið þessi:
Reisa og viðhalda tengiliðaneti æskulýðsfélaga á starfssvæðinu og vera tengiliður við Æskulýðsfélag kirkjunnar á landsvísu.
Umsjón með samfélagsmiðlum og upplýsingamiðlun um æskulýðsstarfið í kirkjunum.
Skipuleggja og kynna samskipti og viðburði æskulýðsfélaga innan kirkjunnar og eftir atvikum efna til samstarfs við önnur samtök eins og KFUM og KFUK.
Viða að og hafa aðgengilegt fræðsluefni fyrir leiðtoga og aðra leikmenn.
Skipulagning og þátttaka í æskulýðsmótum af stærra eða minna sniði. Í því felst m.a. að koma á laggirnar mótum, hvort heldur sem er innan dags eða lengri (gisting) og skipuleggja það sem þarf í því sambandi. Þar með talið að hvetja foreldra til þátttöku með sama hætti og þekkist í keppnisferðalögum íþróttafélaga.
Foreldrasamskipti.
Starfslýsing, apríl 2018.