Sunnudaginn 8. júlí verða aðrir tónleikar í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju.
Flytjendur
eru klarínettutríóið Chalumeaux ásamt sópransöngkonunni Margréti Bóasdóttur.
Á efnisskrá eru sönglög og tónverk eftir Pál Ísólfsson, Karl O. Runólfsson, Atla Heimi Sveinsson, Jón Ásgeirsson, W. A.
Mozart. C. Bononcini og Ch. Graupner.
Chalumeaux trióið er klarínettutríó sem skipað er klarínettuleikurunum Sigurði Ingva Snorrasyni, Kjartani Óskarssyni og Ármanni Helgasyni
sem allir hafa tengst Sinfóníuhljómsveit Íslands um áratuga skeið. Chalumeaux er heiti hljóðfæris sem er formóðir
klarínettunnar, en tónar klarínettuhljóðfæranna eru mjög keimlíkir tónum kirkjuorgelsins.
Margrét hefur haldið fjölmarga tónleika og sungið einsöng í mörgum helstu tónverkum kirkjutónbókmenntanna, hér heima,
víðs vegar um Evrópu og í Bandaríkjunum. Hún hefur sungið með Chalumeaux klarinettutríóinu af og til allt frá stofnun
þess.
Tónleikarnir hefjast kl. 17.00 á sunnudag og er aðgangur ókeypis.